Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir mennta- og barnamálaráðuneytisins

Synjun um rétt til að nota starfsheitið kennari

Ár 2023, þriðjudaginn 3. janúar, var kveðinn upp í mennta- og barnamálaráðuneytinu svofelldur

 

 

ÚRSKURÐUR

í stjórnsýslumáli nr. MRN22020202

I.

Kæra, kröfur og kæruheimild

Mennta- og barnamálaráðuneyti, þá mennta- og menningarmálaráðuneyti, hefur borist stjórnsýslukæra frá A (hér eftir nefnd „kærandi“), dags. 13. október 2021, vegna ákvörðunar Menntamálastofnunar, dags. 1. júlí 2021, um að synja kæranda um rétt til að nota starfsheitið kennari samkvæmt 9. gr. laga um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla nr. 95/2019.

Af kærunni verður ráðið að kærandi fari fram á að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og Menntamálastofnun verði gert skylt að gefa út leyfisbréf honum til handa.

Kæruheimild vegna ákvörðunar Menntamálastofnunar er í 4. mgr. 10. gr. laga nr. 95/2019. Kærufrestur var þrír mánuðir, sbr. jafnframt 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og barst kæra því utan kærufrests.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga segir að vísa beri frá kæru sem berst að liðnum kærufresti nema afsakanlegt sé að kæran hafi ekki borist fyrr eða að aðrar veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar. Af gögnum málsins verður ráðið að eftir að ákvörðun Menntamálastofnunar lá fyrir hafi kærandi verið í nokkrum samskiptum við stofnunina og meðal annars óskað eftir frekari rökstuðningi fyrir ákvörðuninni. Þá verður að ráðið að kærandi hafi talið að hann þyrfti að afla frekari gagna áður en hann legði fram kæru og að tafir hafi verið á afhendingu gagna frá skólum vegna sumarleyfa. Í ljósi samskipta kæranda og Menntamálastofnunar telur mennta- og barnamálaráðuneytið að afsakanlegt sé að kæra hafi ekki borist fyrr og verður hún því tekin til efnislegrar meðferðar, sbr. jafnframt bréf ráðuneytisins til kæranda, dags. 29. október 2021.

II.

Málsatvik

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum lauk kærandi BSc. prófi í íþróttafræði frá Háskólanum í Reykjavík árið [] og MPH í lýðheilsuvísindum frá Háskóla Íslands árið []. Niðurstaða Menntamálastofnunar í máli kæranda, dags. 1. júlí 2021, var byggð á þeirri forsendu að á grundvelli þess náms uppfyllti hann ekki þá almennu hæfni sem krafist er fyrir útgáfu leyfisbréfs kennara skv. 4. gr. laga um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, nr. 95/2019.

Eftir að stjórnsýslukæra barst ráðuneytinu hefur kærandi bætt við sig einingum til viðbótardiplómu í kennslufræðum við Háskóla Íslands á árinu [].

III.

Málsmeðferð

Stjórnsýslukæran barst mennta- og barnamálaráðuneyti, þá mennta- og menningarmálaráðuneyti, þann 15. október 2021. Samkvæmt beiðni ráðuneytisins bárust gögn málsins og umsögn Menntamálastofnunar þann 28. október 2021.

Ráðuneytið sendi kæranda bréf 29. október 2021 þar sem honum var tilkynnt að kæran hefði verið tekin til efnismeðferðar og honum veitt tækifæri á að koma að viðbótargögnum eða athugasemdum máli sínu til stuðnings. Kæranda var veittur frestur til 12. nóvember 2021. Kærandi óskaði eftir viðbótarfresti 12. nóvember 2021 og var sá frestur veittur til 19. nóvember 2021. Ráðuneyti bárust viðbótargögn frá kæranda 19. nóvember 2021. Þann 29. desember 2021 sendi ráðuneytið Menntamálastofnun bréf þar sem óskað var eftir viðbótarumsögn um viðbótargögn kæranda. Ráðuneytinu barst umsögn Menntamálastofnunar 14. janúar 2022. Þá óskaði ráðuneytið eftir mati ENIC/NARIC skrifstofunnar á námi kæranda þann 21. janúar 2022. Ráðuneytinu barst mat ENIC/NARIC skrifstofunnar hér á landi 24. janúar 2022. 

Þann 23. júní 2022 sendi ráðuneytið kæranda bréf þar sem tilkynnt var um tafir á málinu sökum fjölda mála til meðferðar og var beðist velvirðingar á þeim töfum.

Með erindi, dags. 19. desember 2022, óskaði kærandi eftir upplýsingum um stöðu máls síns. Erindið var jafnframt sent háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu sem framsendi erindið til mennta- og barnamálaráðuneytis. Þann 30. desember 2022 og 2. janúar 2023 átti kærandi í samskiptum við mennta- og barnamálaráðuneytið og sendi meðal annars upplýsingar um viðbótarnám sem hann hefur stundað við Háskóla Íslands á árinu [].

IV.

Málsástæður

Í stjórnsýslukæru vísar kærandi til þess að hann telji sig uppfylla hæfniskröfur samkvæmt lögum um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, nr. 95/2019, til þess að fá útgefið leyfisbréf. Kærandi vísar til námsloka sinna frá Háskólanum í Reykjavík og Háskóla Íslands. Þá hefur hann síðar vísað til viðbótarnáms síns við Háskóla Íslands.

V.

Rökstuðningur niðurstöðu

Með lögum um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, nr. 95/2019, voru lögbundin tiltekin skilyrði um hæfni sem einstaklingar þurfa að fullnægja til að geta notað starfsheitið kennari hér á landi. Í lögunum er kveðið á um að eitt leyfisbréf er gefið út fyrir starfsheitið kennari sem gildir fyrir skólastigin þrjú, leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, og hefur sá einn rétt til að nota starfsheitið kennari sem hefur til þess leyfisbréf, sbr. 1. mgr. 9. gr. laganna. Í 3. til 5. gr. laganna er fjallað er um hæfni kennara. Til að öðlast leyfisbréf samkvæmt gildandi lögum þarf umsækjandi annars vegar að búa yfir almennri hæfni samkvæmt 4. gr. laganna, sbr. 2. mgr. 9. gr. sömu laga sem felur í sér að umsækjandi skuli hafa lokið að lágmarki 60 námseiningum í uppeldis- og kennslufræði, og hins vegar sérhæfðri hæfni samkvæmt 5. gr. laganna.

Áður en lög nr. 95/2019 tóku gildi var fyrirkomulag útgáfu leyfisbréfa með þeim hætti að þar var kveðið á um útgáfu þriggja mismunandi leyfisbréfa, einu fyrir hvert skólastig, sem hvert um sig byggði á mismunandi menntunarkröfum. Í gildandi lögum er litið svo á að með almennri hæfni er lagður grunnur að einu leyfisbréfi. Lögverndun starfsheitisins kennari á að stuðla að því að vernda hagsmuni barna og nemenda og tryggja þeim bestu mögulega menntun. Meginforsendan til að ná þessu markmiði er menntun og starfsþróun kennara. Ætlunin með lögum nr. 95/2019 er að draga fram mikilvægi kennarastarfsins og þá sérhæfðu hæfni sem starfið krefst. Það er því grundvallaratriði að þeir einstaklingar sem fá útgefið leyfisbréf uppfylli svo sannarlega lágmarkskröfur um almenna og sérhæfða hæfni.

Kærandi hefur lokið BSc. prófi í íþróttafræði frá Háskólanum í Reykjavík árið [] og MPH námi í lýðheilsuvísindum frá Háskóla Íslands árið []. Skilyrði fyrir því að geta fengið leyfisbréf til að kalla sig kennari samkvæmt lögum, nr. 95/2019, er að viðkomandi hafi lokið meistaraprófi eða öðru námi sem jafngildir meistaraprófi og ráðherra viðurkennir. Umsækjandi um leyfisbréf verður ávallt að uppfylla lágmarksskilyrði um almenna hæfni samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laganna, þ.e. hafa lokið 60 námseiningum í uppeldis- og kennslufræðigreinum. Mennta- og barnamálaráðuneytið fellst á með Menntamálastofnun að nám kæranda sem liggur að baki BSc. prófi í íþróttafræði frá Háskólanum í Reykjavík árið [] og MPH námi í lýðheilsuvísindum frá Háskóla Íslands árið [] uppfylli ekki lágmarksskilyrði 2. mgr. 4. gr. laganna um almenna hæfni.

Eins og að framan greinir hefur kærandi bætt við sig alls 20 ECTS einingum frá því ákvörðun Menntamálastofnunar lá fyrir. Í ljósi þeirrar meginreglu að fjalla beri um mál á tveimur stjórnsýslustigum telur ráðuneytið rétt að fella ákvörðun Menntamálstofnunar úr gildi og leggja fyrir stofnunina að taka mál kæranda til meðferðar að nýju.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun Menntamálastofnunar um að synja kæranda um rétt til að nota starfsheitið kennari er felld úr gildi. Lagt er fyrir Menntamálastofnun að taka mál kæranda til meðferðar að nýju.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum